Aldur er ósýnileg hindrun: Upplifun eldri menntaðra innflytjendakvenna á stöðu sinni á íslenskum vinnumarkaði
##doi.readerDisplayName##:
https://doi.org/10.24122/tve.a.2025.22.2.2Lykilorð:
Aldursfordómar, innflytjendakonur, vinnumarkaðurÚtdráttur
Eldri innflytjendakonur upplifa margvíslegar hindranir sem draga úr möguleikum þeirra á vinnumarkaði. Þrátt fyrir hátt menntunarstig og mikla starfsreynslu mæta þær ýmsum áskorunum sem koma í veg fyrir starfsþróun og takmarka aðgengi að störfum sem samsvara hæfni þeirra. Markmið rannsóknarinnar var að öðlast dýpri skilning á upplifun eldri háskólamenntaðra innflytjendakvenna á stöðu þeirra, áskorunum og hindrunum á íslenskum vinnumarkaði. Að auki var markmiðið að skoða hvernig samspil aldurs, kyns og innflytjendastöðu mótar starfsferil þeirra og áskoranir sem þær mæta. Tekin voru tólf hálfopin djúpviðtöl við konur á aldrinum 49–66 ára sem höfðu búið á Íslandi í 6–25 ár. Þær höfðu allar lokið háskólanámi og voru með fjölbreytta menntun og víðtæka starfsreynslu, bæði hér á landi og erlendis. Rannsóknin var framkvæmd með fyrirbærafræðilegri aðferðafræði. Helstu niðurstöður leiddu í ljós að konurnar upplifa að aldur þeirra dragi úr möguleikum á starfsþróun, sem verður til þess að hæfni þeirra er síður metin að verðleikum. Þetta er flókið samspil aldurs, kyns og uppruna. Þrátt fyrir menntun og reynslu upplifa þær mismunun í ráðningarferlinu og fá ekki störf við hæfi. Þær upplifa útilokun á vinnumarkaði vegna skorts á tengslaneti og bakgrunns. Skortur á viðurkenningu erlendra prófskírteina og tungumálaerfiðleikar takmarkar aðgengi að störfum. Rannsóknin endurspeglar upplifun þessara kvenna á kerfisbundnum hindrunum varðandi viðurkenningu á menntun, fordómum og mismunun vegna aldurs, óhóflegum tungumálakröfum og vinnumarkaðsstefnu sem forgangsraðar staðbundnum yngri umsækjendum. Þessar hindranir valda umtalsverðri sóun á mannauði og eru mikilvægt viðfangsefni stefnumótunar í innflytjendamálum. Þessar niðurstöður undirstrika þörf fyrir markvissar aðgerðir í mannauðsstjórnun og stefnumótun til að tryggja réttlátari vinnumarkað.
Niðurhal
Útgefið
Tölublað
Kafli
Leyfi
Copyright (c) 2025 Erla Sólveig Kristjánsdóttir, Marko Markovic

Greinar í tímaritinu eru gefnar út undir leyfinu (Creative Commons Attribution 4.0 International License).

Útgefið efni tímaritsins er í opnum aðgangi samkvæmt skilmálum Creative Commons Attribution 4.0 License.