Upplýsingar fyrir ritrýna

Ritrýni í Tímariti um viðskipti og efnahagsmál (TVE) er tvíblind (e. double blind), þ.e. höfundum og ritrýnum er ekki kunnugt um nöfn hverra annarra. Ritrýni byggir á trausti og ritrýnir skal hafa það hugfast að handritið sem hann ritrýnir er trúnaðargagn.

Ritrýnar skulu skila athugasemdum sínum í tvennu lagi. Annars vegar með stuttu bréfi til ritstjórnar þar sem lagt er mat á hæfi viðkomandi greinar til birtingar og hins vegar með lengra og nákvæmara bréfi til höfunda(r) með tillögum og ábendingum um úrbætur og svo framvegis. Miðað er við að ritrýnir ljúki verki sínu innan þriggja vikna.

Bréf til ritstjórnar

Tillögur ritrýna til ritstjórnar geta verið ferns konar:

 1. að grein sé samþykkt óbreytt,
 2. að grein sé samþykkt með fyrirvara um tilteknar breytingar,
 3. að gerð sé krafa um miklar breytingar og að endurskoðuð grein verði lögð aftur fyrir ritrýna,
 4. að grein sé hafnað.

Athugasemdir til greinarhöfunda(r)

Æskilegt er að tillögur ritrýnis til höfunda(r) séu uppbyggilegar, jafnvel þó endanleg niðurstaða ritrýnis sé neikvæð fyrir höfund(a). Einnig er hvatt til þess að ritrýnar komi með tillögur um úrbætur og breytingar, jafnvel þó þeir telji handritið ekki hæft til birtingar. Ágætt er að ritrýnir dragi megin niðurstöður sínar saman í upphafi en komi síðan með nákvæmari útlistanir og athugasemdir. Endanleg (ofangreind) niðurstaða ritrýnis um birtingarhæfni á ekki heima í athugasemdum til höfunda(r) heldur á að koma fram í því áliti sem fer til ritstjórnar sem tekur ákvörðun um framhaldið.

Nokkur lykilviðmið fyrir ritrýna

Við mat á ágæti greinar getur verið gott að hafa eftirfarandi viðmið til hliðsjónar, en þau taka m.a. mið af leiðbeiningum til höfunda:

 1. Er nýnæmi að efninu, svo sem að kynnt séu ný gögn, nýjar niðurstöður, framlag til fræðikenninga eða til aðferðafræði?
 2. Er sett fram skýr rannsóknarspurning, ein eða fleiri, og tilgátur ef við á?
 3. Er í inngangi með skýrum hætti dregið fram hver markmið og rannsóknarspurning/ar rannsóknar eru, með hvaða hætti greinin er uppbyggð og hvað það er sem gerir efnið mikilvægt og/eða áhugavert (ekki endilega í þessari röð)?
 4. Er gerð grein fyrir fræðilegri undirstöðu rannsóknar?
 5. Er fjallað um fyrri skrif fræðimanna og fyrri rannsóknir á umræddu sviði?
 6. Er gerð grein fyrir þeim aðferðum sem stuðst er við í rannsókninni og með hvaða hætti unnið sé með gögnin?
 7. Er gerð grein fyrir niðurstöðum og þess gætt að þær séu í samræmi við markmið, rannsóknarspurningu/ar og tilgátur ef við á?
 8. Styðja gögnin við niðurstöður höfunda(r)?
 9. Er í umræðukafla fjallað um niðurstöður í ljósi þeirrar fræðilegu umræðu sem átt hefur sér stað?
 10. Er gerð grein fyrir þeim ályktunum sem draga má af niðurstöðum, hverjar séu takmarkanir rannsóknarinnar og hvaða frekari rannsóknir má gera í tengslum við viðfangsefnið?
 11. Er greinin vel uppsett og frágangur góður, t.d. á tilvísunum í heimildir?
 12. Eru tækifæri til styttingar á greininni án þess að fræðilegt innihald rýrni?
 13. Væri æskilegt að bæta við efni eða umfjöllun um tiltekin atriði og/eða gröfum eða töflum?
 14. Er almennt skipulag greinarinnar og flæði textans gott, og skýr rauður þráður, eða væri til bóta að breyta því, svo sem með tilfærslu á undirköflum, styttingum, viðbótar millifyrirsögnum, útfærslu millifyrirsagna m.t.t. skýrleika o.s.frv.?
 15. Þarfnast handritið viðbótar prófarkarlesturs?