Upplýsingar fyrir höfunda

Greinar sem skilað er til tímaritsins skulu byggja á viðurkenndum fræðilegum grunni og fela í sér framlag til þekkingar á sviði viðskipta- og hagfræði. Megin viðmið er að greinar skulu skrifaðar á íslensku en einnig er tekið við greinum sem skrifaðar eru á ensku. Til þess að handrit komi til álita fyrir ritrýni þarf það að uppfylla eftirtalin viðmið:

 1. Nýnæmi sé til staðar, svo sem að kynnt séu ný gögn, nýjar niðurstöður, framlag til fræðikenninga eða til aðferðafræði. Sett sé fram skýr rannsóknarspurning (ein eða fleiri) sem og tilgátur ef við á. Efni greinarinnar skal ekki hafa birst á öðrum ritrýndum vettvangi.
 2. Birt sé stutt ágrip fremst í greininni. Á íslensku og á ensku sé greinin á íslensku, en einungis á ensku sé greinin á ensku.
 3. Í inngangi skal draga fram með skýrum hætti hvert markmið og rannsóknarspurning/ar rannsóknar er, með hvaða hætti greinin er uppbyggð og hvað það er sem gerir viðfangsefnið mikilvægt og/eða áhugavert (ekki endilega í þessari röð).
 4. Í fræðilegu yfirliti skal gera grein fyrir fræðilegri undirstöðu rannsóknar, fjallað sé um fyrri skrif fræðimanna og fyrri rannsóknir á umræddu sviði.
 5. Í kafla um aðferð sé gerð grein fyrir þeim aðferðum sem stuðst er við í rannsókninni og með hvaða hætti unnið er með gögnin.
 6. Í niðurstöðukafla skal gera grein fyrir niðurstöðum og þess gætt að þær séu í samræmi við markmið, rannsóknarspurningu og tilgátur ef við á.
 7. Í umræðukafla sé fjallað um niðurstöður í ljósi þeirrar fræðilegu umræðu sem átt hefur sér stað. Eftir því sem við á skal gera grein fyrir þeim ályktunum sem draga má af niðurstöðum, hverjar séu takmarkanir hennar og hvaða frekari rannsóknir má gera í tengslum við viðfangsefnið.
 8. Greininni sé skilað með heimildaskrá á sniðmáti tímaritsins og fylgt sé leiðbeiningum sniðmáts í uppsetningu á texta og myndefni.

Ritrýni er tvíblind (e. double blind) þar sem ritrýnar fá ekki upplýsingar um greinarhöfunda og greinarhöfundur ekki upplýsingar um ritrýna. Vakin er athygli á að vegna smæðar hins íslenska fræðasamfélags getur verið æskilegt að greinarhöfundar taki ekki einungis eigin nöfn út úr innsendum handritum greina heldur einnig annað efni sem kann að gefa vísbendingar um höfunda, svo sem upplýsingar um stærri tengda rannsókn og/eða styrkveitingu vegna rannsóknarinnar. Komi til birtingar í tímaritinu eru slík atriði síðan uppfærð í lokafrágangi.

Birting greina í TVE er háð því að handrit sé samþykkt af ritstjórn að lokinni ritrýni. Alla jafna er leitað til tveggja ritrýna en stundum jafnframt þess þriðja ef ósamræmi er í niðurstöðum þeirra fyrri.

Tillögur ritrýna geta verið ferns konar:

 1. að grein sé samþykkt óbreytt,
 2. að grein sé samþykkt með fyrirvara um tilteknar breytingar,
 3. að gerð sé krafa um miklar breytingar og að endurskoðuð grein verði lögð aftur fyrir ritrýna,
 4. að grein sé hafnað.

Tímaritið er gefið út á vefformi tvisvar á ári, um miðjan júní og um miðjan desember. Birting í opnum aðgangi er höfundum að kostnaðarlausu.

Skilafrestur greina er 1. apríl fyrir júníheftið (2. apríl 2024) og 1. október fyrir desemberheftið. Vorið 2023 er skilafrestur greina þann 11. apríl.

Greinar sem birtast í tímaritinu eru metnar til tíu stiga í matskerfi opinberra háskóla.

Greinar eru sendar inn rafrænt hér á heimasíðu tímaritsins. Þegar höfundur sendir í fyrsta sinn inn grein til birtingar þarf hann að skrá sig inn sem nýr notandi (undir INNSKRÁ á stikunni efst á síðunni) og skrá umbeðnar upplýsingar. Kerfið leiðir höfunda síðan áfram þar til grein hefur verið send inn rafrænt. Höfundur sem hefur áður skráð sig inn í kerfið þarf einfaldlega að skrá sig inn með notendanafni og lykilorði neðst til vinstri á síðunni eða fara í INNSKRÁ á láréttu yfirstikunni, sem gerir það sama og hefja síðan fimm skrefa ferilinn á innsendingu greinar.

Höfundar skila greinum inn í sniðmáti tímaritsins sem hægt er að nálgast hér

Greinar eru yfirleitt 15-20 blaðsíður að lengd. Höfundar bera sjálfir ábyrgð á prófarkarlestri greina sinna.

Höfundar bera sjálfir ábyrgð á því efni sem birtist í tímaritinu og bera jafnframt ábyrgð á því að kynna niðurstöður rannsókna sinna af heiðarleika og á þann máta sem vísindasamfélagið gerir kröfu um.

Öllum greinum á að fylgja JEL flokkunarnúmer, eitt eða fleiri eftir atvikum. Upplýsingar um JEL-flokkun er að finna á þessari vefslóð hér.

Um frágang heimilda skal vísað til APA7-staðalsins en ítarlegar leiðbeiningar um hann er að finna hér

Loks eru höfundar hvattir til að kynna sér upplýsingar til ritrýna, sem taka að hluta til mið af framangreindum viðmiðum.