Forvarnir og afleiðingar starfstengdrar kulnunar

Höfundar

  • Arney Einarsdóttir
  • Katrín Ólafsdóttir
  • Sigrún Gunnarsdóttir

DOI:

https://doi.org/10.24122/tve.a.2023.20.1.4

Lykilorð:

Kulnun, mannauðsstjórnun, starfsánægja, sanngirni, traust, áform um starfslok.

Útdráttur

Umræða um kulnun og aukið álag í starfsumhverfi fólks hefur aukist mjög hérlendis síðustu ár eins og víða erlendis. Í rannsóknum hefur sjónum verið beint að einstökum starfsstéttum í umönnunar- og þjónustustörfum, eða þar sem unnið er með fólk, og kulnun gjarnan rakin til viðvarandi álags í starfi sem ekki hefur náðst að stjórna. Starfstengd kulnun einskorðast þó ekki við slík störf og mætti beina sjónum líka að jákvæðum starfstengdum viðhorfum starfsfólks og væntum afleiðingum fyrir vinnustaði í viðhorfum og hegðun starfsfólks. Markmiðið hér er að varpa ljósi á jákvæð starfstengd viðhorf sem geta verndað starfsfólk gegn kulnun í starfi, og að varpa ljósi á afleiðingar kulnunareinkenna í viðhorfum og hegðun starfsfólks í fjölbreyttum störfum og starfsgreinum hér á landi. Notað var almenna mælitæki Maslach Burnout Inventory er mælir svokallað tilfinningaþrot. Gagna var aflað rafrænt meðal 898 starfsmanna í ólíkum störfum og starfsgreinum í alls 32 skipulagsheildum haustið 2019 og var svarhlutfallið 47%. Niðurstöður sýna neikvæð tengsl starfsánægju, sanngirni og trausts við kulnun. Það gefur vísbendingu um að starfsánægja og upplifun starfsfólks á sanngirni og trausti á vinnustað geti verndað starfsfólk gegn kulnunareinkennum. Niðurstöður sýna jafnframt neikvæð tengsl kulnunar við hollustu í starfi af hálfu starfsfólks og jákvæð tengsl við aukin áform um starfslok. Niðurstöður rannsóknarinnar veita innsýn í tengsl jákvæðra viðhorfa starfsfólks við kulnun og mögulegar neikvæðar afleiðingar kulnunar fyrir skipulagsheildir. Niðurstöður eru því framlag til þekkingar á sviði kulnunar meðal fjölbreytts hóps starfsfólks hér á landi. Niðurstöður geta auk þess nýst stjórnendum og öðrum sem starfa á sviði mannauðsmála í markvissri viðleitni í forvörnum gegn kulnun í starfi á vinnustöðum.

Um höfund (biographies)

Arney Einarsdóttir

Dósent við viðskiptafræðideild Háskólans á Bifröst.

Katrín Ólafsdóttir

Dósent við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík.

Sigrún Gunnarsdóttir

Prófessor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Niðurhal

Útgefið

26.06.2023

Hvernig skal vitna í

Einarsdóttir, A., Ólafsdóttir, K., & Gunnarsdóttir, S. (2023). Forvarnir og afleiðingar starfstengdrar kulnunar. Tímarit Um viðskipti Og efnahagsmál, 20(1), 65–82. https://doi.org/10.24122/tve.a.2023.20.1.4

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar