Var Adam ekki lengi í helvíti? Hafa stjórnunarhættir á Íslandi breyst eftir hrunið 2008?
DOI:
https://doi.org/10.24122/tve.a.2019.16.2.2Lykilorð:
Íslenskir stjórnendur, áhættusækni, stjórnunarhættir, 2007, hroki og ábyrgðarleysi.Útdráttur
Íslensk fyrirtæki fóru mikinn á árunum fyrir efnahagshrunið árið 2008 og fjárfestingar stjórnenda skiluðu Íslandi í efsta sæti á hinum alþjóðlega World Investment Report lista ár eftir ár. „Mig er farið að klæja í puttana að loka nýjum díl, við höfum ekkert gert á þessu ári,” var eitt af þeim svörum sem komu fram í rannsóknum höfunda fyrir hrunið enda fjárfestu íslenskir stjórnendur meira en aðrir og iðulega í stærri fyrirtækjum en þeim sem þeir störfuðu fyrir. Eignarhald á hlutabréfum í aðdraganda hruns einkenndist mjög af skuldsetningu hluthafanna. Mikil vogun varð til þess að eigendur skráðra félaga urðu afar viðkvæmir fyrir niðursveiflum á hlutabréfamarkaði enda veðjuðu þeir djarft á öra hækkun. Það þýddi jafnframt mikla pressu á stjórnendur sem urðu helst að skila sífellt glæsilegri niðurstöðum í ársfjórðungsuppgjörum til að stuðla að endalausri hækkun hlutabréfaverðs. Í greininni er skoðað hvort stjórnunarhættir hafi breyst í íslensku viðskiptalífi frá hruni. Rannsóknin náði til 42 stjórnenda á lista yfir 300 stærstu fyrirtæki landsins. Voru þeir m.a. spurðir hvort stjórnunaraðferðir þeirra hefðu eitthvað breyst eftir hrunið 2008. Margar rannsóknir liggja fyrir um aðferðir og einkenni góðra stjórnenda og rannsóknir á aðferðum íslenskra stjórnenda á árunum fyrir hrun bentu til þess að þeir væru áhættusæknir og fljótir að taka ákvarðanir. Sjálfstraustið var mikið, birtist jafnvel sem hvatvísi. Þá virtist skortur á langtímastefnumótun. Rannsóknarspurningin sem hér er sett fram er hvort aðferðir (stjórnunarhættir) íslenskra stjórnenda hafi breyst eftir efnahagshrunið árið 2008. Í ljós kom að stjórnendur í íslensku atvinnulífi eru sammála um að margt hafi breyst í stjórnunarháttum frá því fyrir hrun, óttinn við mistök hafi verið alls ráðandi í atvinnulífinu fyrst eftir hrunið og um tíma dró úr áhættusækni stjórnenda. Tíu árum síðar séu hlutirnir að nálgast ört það sem áður var, þótt hugsanlega sé aðeins meiri varkárni við ákvarðanatöku, meira regluverk og formfesta og meiri áætlanagerð en var. Skuldsetning virðist minni en var á árunum fyrir hrun, þó eru margir stjórnendur á því að rúmum 10 árum eftir hrun sé allt að fara í svipað horf og það var. Bægslaganginum sé þó núna að mestu haldið bak við tjöldin.Niðurhal
Útgefið
30.12.2019
Hvernig skal vitna í
Óladóttir, Ásta D., & Magnússon, G. (2019). Var Adam ekki lengi í helvíti? Hafa stjórnunarhættir á Íslandi breyst eftir hrunið 2008?. Tímarit Um viðskipti Og efnahagsmál, 16(2), 15–36. https://doi.org/10.24122/tve.a.2019.16.2.2
Tölublað
Kafli
Ritrýndar greinar
Leyfi
Útgefið efni tímaritsins er í opnum aðgangi samkvæmt skilmálum Creative Commons Attribution 4.0 License.