Skipulagsform íslenskra fyrirtækja í sveiflukenndu viðskiptaumhverfi 2007-2016
DOI:
https://doi.org/10.24122/tve.a.2016.13.2.2Lykilorð:
Skipulagsform, skipurit, rekstrarumhverfi, Ísland.Útdráttur
Markmið þessarar greinar er að skoða hvort efnahagssveiflur hafi áhrif á skipulagsform (skipurit) íslenskra fyrirtækja. Bornar eru saman kannanir höfunda frá árinu 2007 og árið 2016 og greint hvort efnahagssveiflur hafi haft áhrif á skipulagsform viðkomandi fyritækja. Spurt var í síðari könnuninni hvort einhverjar skipulagsbreytingar hefðu orðið á undanförnum fimm árum, eða til ársins 2011, áður en uppsveifla hófst að nýju í íslensku efnahagslífi. Greinin byggir á niðurstöðum netkannana sem framkvæmdar voru af Rannsóknar- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri árið 2007 og af Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands árið 2016. Svör bárust frá stjórnendum 222 fyrirtækja árið 2007 og stjórnendum 120 fyrirtækja árið 2016. Svarhlutfall var því 46,15% árið 2007 og 24,4% árið 2016. Samanburður kannananna bendir til þess að hagsveiflur, bæði uppsveiflur og samdráttur í efnahagslífi, hafi ekki haft mikil áhrif á stjórnskipulag þeirra fyrirtækja sem tóku þátt í rannsókninni. Þó er þess að geta að 36,4% fyrirtækja gripu til samruna við önnur fyrirtæki, yfirtöku á öðru fyrirtæki eða annarra skipulagsbreytinga eftir efnahagshrunið árið 2008, en stjórnendur voru beðnir að greina frá skipulagsbreytingum sem orðið hefðu síðastliðin fimm ár. Fyrirtækin hafa fleira starfsfólk hin síðari ár, stjórnendur þeirra eru með meiri menntun og fleiri konur eru við stjórnvölinn nú en voru fyrir hrun. Stærð fyrirtækjanna hefur áhrif á ýmsa þætti í skipulaginu. Stærri fyrirtæki hafa meiri formfestu, sérhæfingu og hafa frekar samþykkt stjórnskipulag, þau hafa þrjú eða fleiri stjórnþrep og eru frekar skipulögð í anda fléttuskipulags. Þá kemur í ljós að eftir því sem rekstrarumhverfi fyrirtækjanna er stöðugra, þeim mun meiri líkur eru á því að starfaskipulag sé við lýði.Niðurhal
Útgefið
15.12.2016
Hvernig skal vitna í
Óladóttir, Ásta D., Óskarsson, G. K., & Eðvarðsson, I. R. (2016). Skipulagsform íslenskra fyrirtækja í sveiflukenndu viðskiptaumhverfi 2007-2016. Tímarit Um viðskipti Og efnahagsmál, 13(2), 17–38. https://doi.org/10.24122/tve.a.2016.13.2.2
Tölublað
Kafli
Ritrýndar greinar
Leyfi
Útgefið efni tímaritsins er í opnum aðgangi samkvæmt skilmálum Creative Commons Attribution 4.0 License.