Þróun þekkingarstjórnunarkvarða

Höfundar

  • Þórhallur Guðlaugsson
  • Guðmundur Skarphéðinsson

DOI:

https://doi.org/10.24122/tve.a.2013.10.1.2

Lykilorð:

Þekkingarstjórnun, þekkingarmæling, fyrirtækjamenning, þekkingarstjórnunarkvarði.

Útdráttur

Markmið rannsóknarinnar var að þróa mælitæki sem leggur mat á stöðu þekkingarstjórnunar innan skipulagsheilda. Þekking er ein mikilvægasta auðlind fyrirtækja og stofnana og einn mikilvægasti þátturinn til þess að öðlast samkeppnisforskot. Byggt er á spurningalista Denisons um fyrirtækjamenningu sem skiptist í fjórar víddir sem eru þátttaka og aðild, samkvæmni og stöðugleiki, aðlögunarhæfni og loks hlutverk og stefna. Hver vídd inniheldur þrjár undirvíddir með fimm atriði hver. Þátttakendur í rannsókninni voru 1.132 starfsmenn 13 íslenskra fyrirtækja. Karlar voru í meirihluta eða 59,3% (n=658) en konur voru 40,7% (n=452). Um 30% þátttakenda störfuðu í fjarskiptaþjónustu og um 15% í fjármálaþjónustu. Þátttakendur komu einnig úr öðrum greinum eins og orkugeiranum og þjónustu‐ og framleiðslugreinum. Til þróunar á þekkingarstjórnunarkvarða voru 11 atriði sem talin voru tengjast þekkingarstjórnun þáttagreind og staðfestandi þáttagreining sýndi að tveggja þátta líkan lýsti gögnunum betur en eins þáttar líkan. Þessir þættir voru innri og ytri þekkingarstjórnunaráhersla. Báðir þættirnir tengdust árangri fyrirtækja eins og heildarframmistöðu og gæðum vöru og þjónustu. Einnig kom í ljós að innri þekkingarstjórnunaráhersla hafði sterkari tengsl við ánægju starfsmanna en ytri þekkingarstjórnunaráhersla. Ytri þekkingarstjórnunaráhersla hafði tengsl við ánægju viðskiptavina en innri ekki. Þetta virðist renna stoðum undir réttmæti þeirrar þáttabyggingar sem dregin er fram í rannsókninni. Frekari rannsóknarvinnu er þörf til að kanna hvort þessir þættir gefi réttmætt mat á stöðu þekkingarstjórnunar innan fyrirtækja almennt.

Um höfund (biographies)

Þórhallur Guðlaugsson

Háskóli Íslands

Guðmundur Skarphéðinsson

The Center for Child and Adolescent Mental Health, Eastern and Southern Norway

Niðurhal

Útgefið

15.06.2013

Hvernig skal vitna í

Guðlaugsson, Þórhallur, & Skarphéðinsson, G. (2013). Þróun þekkingarstjórnunarkvarða. Tímarit Um viðskipti Og efnahagsmál, 10(1), 1–20. https://doi.org/10.24122/tve.a.2013.10.1.2

Tölublað

Kafli

Ritrýndar greinar